Innlent

Bjarni fær kaldar kveðjur frá Davíð

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.

Mikil ólga er hinnan Sjálfstæðisflokksins vegna Icesave-málsins en Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, fær kaldar kveðjur frá Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni, í leiðara Morgunblaðsins í dag og kallar Davíð hann vikapilt Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra.

Níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu í gær atkvæði með því að frumvarp vegna nýjustu Iceasve-samninganna færi til þriðju umræðu í þinginu og þá hefur formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, lýst yfir stuðningi við samningana.

Bjarni fær heldur kaldar kveðjur frá fyrrverandi formanni flokksins, Davíð Oddssyni, í leiðara Morgunblaðsins í dag, en þar segir að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi skyndilega ákveðið að verða vikapiltur Steingríms J. Sigfússonar í málinu. Ekki hafi fengist nein haldbær skýring á þeirri breytingu á afstöðu hans og hvers vegna hann hafi ákveðið að gefa landsfundi flokks síns langt nef. Sjálfstæðismenn séu agndofa.

Málið snýst um „réttlæti og lögmæti"

Í leiðaranum segir að eðli hins nýja samnings sé algjörlega óbreytt. Reynt sé að plata fólk til fylgilags við nýju Icesave-samningana með vísun til vaxtabreytinga. En málið snúist ekki um það heldur um réttlæti og lögmæti. Þá sé á almanna vitorði að þingflokkur sjálfstæðismanna sé enn án sjálfstrausts og ekki til stórræðanna. Það sé þó óþarfi því þeir séu í stjórnarandstöðu gagnvart einni verstu stjórn sem í landinu hafi setið, eins og það er orðað. Þá er gagnrýnt að alltaf mæti forystumenn Sjálfstæðisflokksins „trítlandi“ þegar forsætisráðherra kalli þá í sín hús til að gera fyrir sig viðvik. Ekki náðist í Bjarna Benediktsson í morgun til að fá viðbrögð við skrifum formannsins fyrrverandi.

Meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins fylgir Bjarna að málum. Hins vegar er enginn vafi á því að ákveðin ólga er innan flokksins vegna málsins og útséð að þingflokkurinn mun ekki koma fullkomlega samhentur fram. Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna í gær og talið er að einhverjir þeirra muni á endanum greiða atkvæði gegn frumvarpi vegna nýrra samninga, en Unnur Brá Konráðsdóttir var eini þingmaður flokksins sem greiddi atkvæði gegn því að frumvarpið færi til þriðju umræðu í gær.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær virðist óánægja innan flokksins ekki birtast í miklum úrsögnum úr honum því rétt um þrjátíu flokksmenn höfðu sagt sig úr flokknum gær, en í heildina eru félagar í Sjálfstæðisflokknum rúmlega fimmtíu þúsund. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur úrsögnum fjölgað, en ekki náðist í Jónmund Guðmarsson, framkvæmdastjóra flokksins í morgun til að fá staðfestar tölur. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×