Innlent

Stórhríð á Vestfjörðum og varað við hreindýrum á Austurlandi

Vonskuveður var á landinu í nótt.
Vonskuveður var á landinu í nótt.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka bæði á Hellisheiði og í Þrengslum, líkt og á flestum vegum á Suðurlandi. Þá er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á Vesturlandi og þungfært á Útnesvegi og Skógarströnd.

Í tilkynningunni frá Vegagerðinni kemur fram að stórhríð sé nú á sunnanverðum Vestfjörðum og þungfært. Þæfingsfærð í Ísafjarðardjúpi en stórhríð er bæði á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Það er hálka í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Öxnadalsheiði er ófær en farið er að huga að mokstri. Hríðarveður er í Þingeyjasýslum, víða hvasst og mikill skafbylur. Hólasandur er þungfær.

Á Austurlandi er víðast hvar nokkur hálka eða snjóþekja. Búið er að opna Fjarðarheiði.

Á Suðausturlandi eru ýmist hálkublettir eða hálka.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur á Austurlandi við mikilli umferð hreindýra, sérstaklega á Fagradal.

Vegfarendur eru beðnir að hafa í huga að víða er ekki mokstur, eða önnur þjónusta á vegum, á kvöldin og nóttunni. Raunar eru sumir vegir ekki í þjónustu nema fáa daga í viku.

Þeir vegfarendur sem ætla að leggja land undir fót er bent á að hægt er að hafa samband við Vegagerðina í síma 1777 eða nálgast upplýsingar á vef Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×