Innlent

Barnæska borgarstjóra ótengd niðurskurði í menntamálum

Sóley Tómasdóttir gagnrýnir að borgarstjóri hafi ekki lagt neitt málefnalegt fram í umræðu borgarstjórnar um niðurskurð í menntakerfinu
Sóley Tómasdóttir gagnrýnir að borgarstjóri hafi ekki lagt neitt málefnalegt fram í umræðu borgarstjórnar um niðurskurð í menntakerfinu
„Hans þrár og langanir sem barn koma niðurskurði í menntakerfinu nú ekki neitt við. Allavega benti hann ekki á nein tengsl þar á milli," segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, um Jón Gnarr borgarstjóra og ræðu hans á fundi borgarstjórnar í gær þar sem niðurskurður í menntamálum var til umræðu.

Á fundinum var Jóni tíðrætt um hans eigin skólagöngu og hversu mjög hann langaði til að verða trúður þegar hann yrði stór.

Málið var rætt að beiðni fulltrúa úr öllum flokkum á borgarstjórnarfundi þar sem gríðarlegur niðurskurður blasir við í menntakerfinu.

„Borgarstjóri fór upp í pontu og lýsti skólagöngu sinni. Þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti sem hann fer yfir það hvernig honum leið þegar hann var í skóla. Hann minntist hins vegar ekki einu orði á börnin sem núna eru í skóla, hvernig menntakerfið á að þjóna þeim eða hvað hann hyggst fyrir," segir Sóley. Hún steig í pontu á eftir Jóni.

„Ég fór upp í andsvar og baðst undan því að borgarstjóri kæmi fram með sínar persónulegu reynslusögur án þess að leggja neitt til málanna. Honum ber skylda til að taka þátt í umræðu um þennan mikilvæga málaflokk," segir Sóley.

Sóley segir að lítið hafi komið út úr umræðunni, fólk hafi skipst á skoðunum en engin niðurstaða fengist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×