Erlent

Versta þyrluslys í sögu Noregs

Þyrla frá norska flughernum á leið á slysstað.
Þyrla frá norska flughernum á leið á slysstað. MYND/AFP
Fimm manns létu lífið þegar þyrla flaug á fjall í Harðangri í Noregi í gærkvöldi. Þrjú lík hafa fundist en ekki er enn ljóst hvað olli slysinu, en á vef norska ríkismiðilsins NRK segir að um sé að ræða eitt versta þyrluslys í sögu landsins þótt fleiri hafi látist í slysi þegar þyrla fórst undan ströndum landsins.

Þá kemur einnig fram á vefnum að þyrlan var á vegum fyrirtækisins Airlift-helikopter, sem á 15 árum hefur lent í átta þyrluslysum. Fólkið sem var um borð í þyrlunni hafði leigt hana en um var að ræða hóp sem stóð í smíði sumarbústaða. Nokkrir höfðu þegar verið fluttir á svæðið og urðu þeir vitni að því þegar þyrlan steyptist til jarðar. Hún sprakk í loft upp og logaði enn í brakinu nokkrum klukkutímum síðar.

Sjónarvottarnir urðu síðan að ganga í þrjá stundarfjórðunga til þess að komast í símasamband og láta lögreglu og björgunarlið vita. Nöfn hinna látnu hafa ekki verið gerð opinber en um er að ræða fólk frá nokkrum stöðum í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×