Áætlaður kostnaður við árleg þrif á glerhjúp tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu er um 8 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að hjúpurinn verði hreinsaður nokkrum sinnum á ári, og að sú hlið sem snýr að umferðargötum verði þrifin oftar en aðrar.
Þetta kemur fram í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar.
„Reynslan af vinnubúðum á lóðinni sem standa sjávarmegin við umferðargötur er sú að salt festist ekki á glugga og óhreinindi frá umferð eru engin á þeirri hlið sem snýr að sjó og varla merkjanleg á öðrum hliðum. Virðist rigna af jafnharðan. Á glerhjúp hússins sjálfs hefur fallið gosaska í vissum veðrum og óhreinindi frá ófrágenginni lóð eru áberandi svo ekki er unnt að dæma þetta með sama hætti," segir í svarinu.
Mörður lagði fram ítarlega fyrirspurn á Alþingi um miðjan febrúarmánuð þar sem hann vildi fá svör við fjölda spurninga um Hörpuna, þeirra á meðal um kostnað við þrif á glerhjúpnum.
