Innlent

Heiða Kristín: Það stefnir allt í hreinan meirihluta

Heiða Kristín Helgadóttir leiðir framboðið ásamt Guðmundi Steingrímssyni, þingmanni.
Heiða Kristín Helgadóttir leiðir framboðið ásamt Guðmundi Steingrímssyni, þingmanni.
„Mér finnst þetta mjög áhugavert. Þetta er nokkurskonar þjófstart," segir Heiða Kristín Helgadóttir, sem ásamt Guðmundi Steingrímssyni, vinna að nokkurskonar systurframboði Besta flokksins til alþingiskosninga 2013.

Nýtt framboð mælist allavega vel á meðal þeirra sem voru spurðir í könnun MMR en þar segjast 33,5 prósent aðspurðra geta hugsað sér að kjósa framboð þeirra.

Hvernig sem á það er litið þá er könnunin jákvæð fyrir framboðið, sem hefur ekki einu sinni hlotið nafn. En að sögn Heiðu Kristínar stendur til að bæta úr því, „við sjáum til að mynda fyrir okkur opna nafnasamkeppni," segir hún um hugsanlegt nafn stjórnmálaaflsins.

Heiða Kristín og Guðmundur hafa þreifað fyrir sér á landsbyggðinni og rætt við ýmsa aðila um að standa að framboðinu. Sú vinna er enn í mótun að sögn Heiðu.

Það er ljóst að stjórnmálaumhverfið er ólíkt öðru eftir hrun. Vantraust til stjórnmálamanna er gríðarlegt líkt og árangur Besta flokksins sýndi og sannaði í síðustu borgarstjórnarkosningum.

Þá náði Borgarahreyfingin fjórum þingmönnum inn á Alþingi í þingkosningum 2009. Þingmennirnir klufu sig hinsvegar frá Borgarahreyfingunni á miðju kjörtímabili og heitir flokkurinn nú Hreyfingin.

Heiða segist standa í þeirri trú að framboð þeirra nú sé ferskari vettvangur bæði fyrir stjórnmálaþenkjandi fólk sem og hina.

Aðspurð hvort framborðið verði sett fram í gríni líkt og Besti flokkurinn svarar Heiða:

„Mig langar ekki til þess að búa til leiðinlegan flokk. En það eru til margar leiðir til þess að koma skilaboðum áleiðis," segir Heiða Kristín.

Heiða segir könnun MMR gefa framboðinu byr í seglin. „Þetta er bara upphafið. Það stefnir allt í hreinan meirihluta með þessu áframhaldi," bætir Heiða við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×