Skoðun

Kveðum burt leiðindin

Mörður Árnason skrifar
Sama hvað gerist á laugardaginn: Ekkert íslenskt barn fer í breska kolanámu, og hákarlarnir sigla áfram sinn sjó. Kostirnir eru einfaldlega ekki himnaríki og helvíti. Samt skiptir þjóðaratkvæðagreiðslan miklu máli. Líklegt er samt að nei-úrslit framlengi deyfð og drunga í íslensku samfélagi, auki óvissuna um framtíð fjölskyldna og fyrirtækja, viðhaldi atvinnuleysi og fátækt, tefji bæði efnalega og andlega endurreisn – og efli þar með á misrétti og úlfúð krepputímanna. Ennþá meira af leiðindum. Já á laugardaginn – það mundi hinsvegar sýna að þjóðin sé komin af sjálfsvorkunnarstiginu og farin að glíma af raunsæi við verkefnin sem fyrir liggja. Já merkir líka að hér fer fólk sem gengst við ábyrgð og stendur við skuldbindingar. Því hversu sárt sem hundsbitið kann að hafa verið þá var það sannarlega íslenskt hundsbit – íslenskra auðjöfra og íslenskra stjórnmálamanna, sem við sjálf vorum svo vitlaus að kjósa. Icesave hefur tafið og þvælst fyrir, ruglað í ríminu og valdið áköfum og þrúgandi leiðindum í þjóðlífinu. Þannig var það bara, og hvert mep sínum hætti höfum við tekið þátt í þessu havaríi. Niðurstaðan er fyrir samningur sem flestir fyrri efasemdarmenn telja ásættanlegan ef ekki beinlínis hagstæðan. Nú er að kveða burt leiðindin – og það getum við á laugardaginn.



Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×