Lífið

Life of Brian efniviður í nýja mynd

Life of Brian eftir Monty Python-flokkinn var ákaflega umdeild og nú stendur til að gera kvikmynd um fárið í kringum hana.
Life of Brian eftir Monty Python-flokkinn var ákaflega umdeild og nú stendur til að gera kvikmynd um fárið í kringum hana.
BBC hefur ákveðið að ráðast í gerð kvikmyndar sem fjalla á um fárið í kringum Monty Python-myndina Life of Brian. Handrit eftir Tony Roche er tilbúið og búið er að ráða í helstu hlutverk. Samkvæmt frétt Guardian kemur enginn af meðlimum grínhópsins nálægt myndinni. Þeim hafi þó verið gefið tækifæri til að gera athugasemdir við handrit og koma sínum skoðunum á framfæri.

Life of Brian var frumsýnd árið 1979. Hún segir sögu gyðingsins Brians Cohen sem fyrir misskilning er talinn vera Jesús. Kirkjunnar mönnum fannst þessi hugmynd ekkert fyndin, þvert á móti þótti þeim bresku grínistarnir vera að stunda guðlast og hafa þjáningu Krists í flimtingum. Myndin var að endingu bönnuð á Írlandi og í Noregi auk þess sem nokkur sveitarfélög á Bretlandi neituðu að sýna hana.

Miðpunktur myndarinnar verður frægur umræðuþáttur þar sem Monty Python-liðarnir John Cleese og Michael Palin þurftu að þola miklar árásir af hendi kaþólska blaðamannsins Malcolm Muggeridge og biskupsins Mervyn Stockwood. Þeim Muggeridge og Stockwood var boðið að sjá myndina fyrir umræðuþáttinn en komu korteri of seint. Þeir misstu þar með af upphafinu en þar kemur einmitt fram að Brian og Jesús eru tvær ólíkar persónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.