Enski boltinn

Dawson: Stefnum á fjögur efstu sætin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Michael Dawson er varafyrirliði Tottenham.
Michael Dawson er varafyrirliði Tottenham. Nordic Photos/Getty
Michael Dawson miðvörður Tottenham í ensku úrvalsdeildinni segir Tottenham setja markið á fjögur efstu sætin í deildinni. Leikmenn sem stuðningsmenn vilji komast aftur í Meistaradeildina.

„Við stefnum á efstu fjögur sætin. Við höfum verið þar og erum hungraðir í að ná því aftur,“ sagði Dawson í samtali við dagblaðið The Independent. Dawson er hvergi banginn þrátt fyrir að Tottenham hafi lítið styrkt sig á meðan Liverpool og Manchester City hafa varið nokkrum milljörðum króna í nýja leikmenn.

„Auðvitað eru vonbrigði að vera ekki í Meistaradeildinni. Þar vilja allir spila og stuðningsmennirnir eru sama sinnis. Það voru þúsundir sem ferðuðust með okkur á alla leiki og þeir nutu þess jafn mikið og leikmennirnri,“ sagði Dawson.

Dawson missti af stórum hluta síðasta tímabils vegna meiðsla. Hann segir Tottenham hafa tekið stórt skref fram á við og vinni nú mótherja sem það gerði ekki áður. Vandamálið sé töpuð stig gegn minni liðum deildarinnar.

„Í fyrsta leiknum á tímabilinu (markalaust jafntefli gegn Manchester City á White Hart Lane) átti Joe Hart þvílíkan stórleik. Við vorum 2-0 undir gegn Arsenal og unnum 3-2. Við duttum aðeins niður undir lok tímabilsins en sýndum karakter með því að vinna Liverpool 2-0. Við höfðum ekki unnið þar lengi og náðum fimmta sætinu,“ sagði Dawson.

Tottenham mætir Everton í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×