Enski boltinn

Sky Sports: QPR búið að bjóða fjórar milljónir í Parker

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott Parker.
Scott Parker. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tony Fernandes er orðinn meirihlutaeignandi í Queens Park Rangers og hann er fljótur að láta til síns taka því Sky Sports hefur heimildir fyrir því að Queens Park Rangers er búið að bjóða fjórar milljónir punda í Scott Parker hjá West ham.

Fernandes keypti 66 prósent í Queens Park Rangers af Bernie Ecclestone en varaformaðurinn Amit Bhatia á 33 prósent hluta í félaginu. Það bendir allt til þess að Neil Warnock verði áfram knattspyrnustjóri liðsins.

Scott Parker hefur verið orðaður við mörg úrvalsdeildarfélög síðan að West Ham féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor. Enski landsliðsmiðjumaðurinn er þó metinn á meira en fjórar milljónir punda en búist var við því að hann myndi kosta í kringum átta milljónir punda.

Queens Park Rangers tapaði 0-4 á móti Bolton í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni og þar var ljóst á öllu að lærisveinar Neil Warnock þurfa frekari liðstyrk fyrir baráttuna í vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×