Innlent

Fimmtán ára fær fjórar milljónir vegna vinnuslyss

Hafnarfjarðarhöfn. Myndin er úr safni.
Hafnarfjarðarhöfn. Myndin er úr safni.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Löndun ehf. og Tryggingamiðstöðina til þess að greiða pilti rúmlega fjórar milljónir vegna vinnuslyss sem varð þegar drengurinn var fimmtán ára gamall.

Atvikið átti sér stað í janúar 2008. Drengurinn var þá að vinna við uppskipun úr skipi á athafnasvæði Eimskips í Hafnarfjarðarhöfn. Farmurinn var steypustyrktarjárn í búntum.

Drengurinn stóð uppi á búnti ásamt vinnufélögum sínum til að stýra öðru búntinu á sinn stað. Í umrætt sinn mun búntið hafa færst til þannig að pilturinn og vinnufélagar hans þurftu að rétta það af með því að styðja við það, en í sömu mund og því var slakað niður rann pilturinn til og hægri fótur hans lenti undir því. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild og reyndist ökklabrotinn.

Starfsdagur var í skólanum þennan dag en drengurinn vann hjá fyrirtækinu þegar hann var ekki í skólanum.

Í lögum er sú meginregla að ekki megi ráða börn til vinnu nema í undantekningatilvikum, og þá í léttari störf. Starfið sem drengurinn sinnti þótti ekki flokkast undir létt störf og voru honum því dæmdar bæturnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×