Innlent

Kvöldganga um söguslóðir vinstrihreyfingarinnar

Hjónin Guðrún Ágústsdóttir og Svavar Gestsson.
Hjónin Guðrún Ágústsdóttir og Svavar Gestsson.
Hjónin Svavar Gestsson og Guðrún Ágústsdóttir fara fyrir göngu í kvöld um söguslóðir vinstrihreyfingarinnar í Reykjavík þar sem gengið verður að tilteknum húsum í miðborginni. Meðal þeirra eru Alþýðuhúsið við Vonarstræti og Vinaminni. Um er að ræða kvöldgöngur sem skipulagðar eru af Ljósmynda-, Borgarbóka-, Lista-, og Minjasafni Reykjavíkur.

Gengið verður meðal annars að Alþýðuhúsinu þar sem verkalýðssamtök, Alþýðuflokkur og Alþýðublaðið voru til húsa. Þá verður saga Þjóðviljans rakin en blaðið var við Skólavörðustíg 19 í áratugi, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar. Svavar ritsýrði blaðinu á árunum 1971-1978. „Litið síðan á hús Máls og menningar. Einnig verður gengið að Fjalakettinum en þar var Bröttugötusalurinn þar sem Kommúnistaflokkur Íslands hélt marga fundi sína. Litið verður við í Vinaminni við Mjóstræti þar sem Samtök hernámsandstæðinga höfðu skrifstofur um skeið. Þá verður endað í Tjarnagötu 20 þar sem Sósíalistaflokkurinn var lengi til húsa. Á leiðinni þangað verður talað um Bárubúð sem stóð þar sem ráðhúsið er,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

Svavar er fyrrverandi þingmaður og ráðherra auk þess sem hann var formaður Alþýðubandalagsins á árunum 1980-1987. Guðrún er fyrrverandi borgarfulltrúi og formaður borgarstjórnar.

Lagt verður af stað úr Grófinni, milli Tryggvagötu 15 og 17, klukkan 20 í kvöld. Fram kemur á vef borgarinnar að allir eru velkomnir og þátttaka ókeypis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×