Handbolti

Kiel niðurlægði Bergischer í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Bongarts
Kiel er eitt á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta sem stendur eftir átján marka stórsigur á Bergischer HC í dag, 34-18. Þá voru Íslendingar einnig á ferð í B-deildinni í Þýskalandi, sem og í Danmörku og Svíþjóð.

Aron Pálmarsson skoraði ekki í dag en Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel. Liðið er með átta stig eftir fjóra leiki en Füchse Berlin og Melsungen eru einnig með fullt hús stiga en hafa aðeins spilað þrjá leiki.

Meistarar Hamburg komust aftur á sigurbraut eftir að hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum með sigri á Eintracht Hildesheim í dag, 34-28.

Björgvin Hólmgeirsson fór mikinn þegar að lið hans, DHC Rheinland, vann sigur á Düsseldorf í þýsku B-deildinni í dag, 22-19. Björgvin skoraði sex mörk fyrir Rheinland og var markahæstur. Ernir Hrafn Arnarson skoraði tvö mörk fyrir Düsseldorf.

DHC Rheinland er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki, rétt eins og Minden. Düsseldorf er í sextánda sætinu með eitt stig.

Í Danmörku skoraði Ólafur Guðmundsson sex mörk fyrir Nordsjælland sem tapaði þó fyrir Bjerringbro-Silkeborg, liði Guðmundar Árna Ólafssonar, í dag, 32-24.

Bjerringbro-Silkeborg er í fimmta sætinu með fimm stig eftir fimm umferðir en Nordsjælland er í tólfta sæti með einungis tvö stig.

Haukur Andrésson skoraði fjögur mörk fyrir Guif sem vann Skövde á útivelli, 34-30, í Svíþjóð. Kristján Andrésson, bróðir Hauks, er þjálfari liðsins.

Í gær vann Drott sigur á Kristanstad, 26-22, í sömu deild en Gunnar Steinn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir fyrrnefnda liðið. Bæði Guif og Drott hafa unnið báða leiki sína til þessa á tímabilinu í sænsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×