Erlent

Meira en þúsund hús ónýt

Erfiðlega hefur gengið að slökkva eldana í Texas.nordicphotos/AFP
Erfiðlega hefur gengið að slökkva eldana í Texas.nordicphotos/AFP
Meira en þúsund hús hafa orðið skógar- og kjarreldum víða í Texas að bráð síðustu dagana. Flest þessara húsa, eða nærri 600, stóðu í Bastrop-sýslu sem er skammt frá höfuðborginni Austin.

Ástandið var heldur skárra í gær en dagana þar á undan, enda hafði lægt þannig að hvassviðri ýfði ekki upp eldana. Engu að síður reyndist erfitt að ná tökum á þeim.

Í Bastrop-sýslu þurftu um fimm þúsund manns að yfirgefa heimili sín vegna eldhættunnar.

Um 400 manns fengu gistingu í neyðarskýlum.

Engar fréttir höfðu borist af manntjóni í gær og ekki var vitað til þess að neinn hefði lokast inni á heimili sínu. Á sunnudag lét þó tvítug kona lífið ásamt ungu barni sínu.

Miklir þurrkar hafa verið í Texas undanfarið og engin breyting sjáanleg í veðurkortum næstu daga.

Rick Perry, ríkisstjóri í Texas, þurfti að gera hlé á kosningabaráttu sinni, en hann vonast til að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins haustið 2012.

Þess í stað heimsótti hann einn þeirra bæja sem illa hafa orðið úti í eldunum.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×