Innlent

Samningurinn ekki nógu góður

Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Krafan um að Icesavesamningurinn fari í þjóðaratkvæðagreiðslu virðist njóta æ meira fylgis í þingliði Sjálfstæðisflokksins. Formaður flokksins segist ekki hafa útilokað þann möguleika, en hann hefur boðað til fundar um málið í Valhöll í dag. Búist er við fjölmennum fundi en afar skiptar skoðanir eru um málið innan flokksins.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti yfir stuðningi við Icesavesamninginn í vikunni, ásamt átta þingmönnum flokksins. Sú afstaða hefur vakið hörð viðbrögð frá flokksmönnum og hafa ungliðahreyfingar og önnur aðildarfélög innan flokksins mörg hver lýst yfir vonbrigðum með afstöðuna. Þá hefur fyrrverandi formaður flokksins gagnrýnt Bjarna og sagt hann vikapilt Steingríms J. Sigfússonar.

Í Morgunblaðinu í dag lýsir Kristján Þór Júlíusson þingmaður flokksins þeirri skoðun sinni að hann vilji að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar útilokar Bjarni ekki þann möguleika.

Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður flokksins er andsnúinn samningnum og hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni.

„Það eru auðvitað skiptar skoðanir um þetta mál í Sjálfstæðisflokknum. Mín afstaða er skýr. Samningurinn er ekki nógu góður," segir Unnur Brá og tekur fram að Íslendingum beri ekki að borga kröfur Breta og Hollendinga. „Og ef við ætlum að gera það, verður samningurinn að vera góður, þessi samningur er það ekki."

En er Unnur á þeirri skoðun að samningurinn ætti að fara í Þjóðaratkvæðagreiðslu?

„Ég tel að það væri gott, ef slík tillaga kæmi fram í þinginu."

Sjálf kemst hún ekki á fundinn í Valhöll í dag en hvetur fólk til þess að mæta og hlusta á röksemdir forystu Sjálfstæðisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×