Enski boltinn

BBC: Martin O'Neill búinn að segja já við Sunderland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin O'Neill og Roy Keane
Martin O'Neill og Roy Keane Mynd/Nordic Photos/Getty
Martin O'Neill verður næsti stjóri Sunderland en BBC hefur heimildir fyrir því að hann hafi samþykkt að taka við starfi Steve Bruce. Bruce var rekinn á miðvikudaginn eftir tveggja ára starf á Leikvanginn Ljóssins.

Martin O'Neill var síðast stjóri Aston Villa en gekk út í ágúst í fyrra. Hann hefur orðaður við margar lausar stjórastöður síðan þá en O'Neill hefur einnig verið stjóri liða eins og Wycombe, Norwich, Leicester og Celtic.

Martin O'Neill hitti Ellis Short, eiganda og stjórnarformann Sunderland, í London í gærkvöldi og þar gengu þeir frá samningi. BBC hefur líka heimildir fyrir því að O'Neill hafi verið til í starfið þrátt fyrir að hann fengi ekki mikinn pening til að kaupa nýja leikmenn í janúar.

Martin O'Neill er 59 ára gamall og fyrrum leikmaður Nottingham Forest. Hann vakti fyrst alvöru athygli fyrir starf sitt hjá Leicester City og Celtic en hann fór síðan til Aston Villa árið 2006. Aston Villa varð þrisvar í sjötta sæti undir hans stjórn og komst að auki í úrslitaleik deildarbikarsins áður en O'Neill sagði af sér eftir ósætti við eiganda félagsins.

Sunderland mætir Wolves í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn en það er ekki búist við því að O'Neill stýri liðinu í þeim leik. Sunderland er aðeins í 16. sæti deildarinnar og hefur aðeins fengið tvö stig út úr síðustu fjórum leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×