Sport

Wenger: Væri hræðilegt ef aðeins eitt enskt lið kæmist áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger segir að það væri skelfilegt fyrir ensku úrvalsdeildina ef aðeins eitt enskt lið kæmist áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Wenger er stjóri Arsenal sem hefur þegar tryggt sér sigur í F-riðli Meistaradeildarinnar og þar með sæti í 16-liða úrslitunum. Lokaumferð riðlakeppninnar fer fram í kvöld og á morgun og eiga Manchester United, Manchester City og Chelsea hættu á að falla úr leik.

United þarf minnst eitt stig gegn Basel frá Sviss, Chelsea verður að vinna Valencia eða gera markalaust jafntefli og City þarf að vinna sinn leik og treysta á hagstæð úrslit í hinum leiknum.

„Það væri skelfilegt fyrir England að eiga bara eitt lið í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það gæti haft áhrif á hvort að England fái þrjú eða fjögur sæti í keppninni í framtíðinni,“ sagði Wenger. Það verður þó að teljast afar ólíklegt að eitt slæmt ár hafi slík áhrif, þar sem England stendur gríðarlega vel að vígi í stigagjöf UEFA og er í dag talin sterkasta deild Evrópu.

Wenger hefur stýrt Arsenal í 199 Evrópuleikjum en liðið mætir Olympiakos í kvöld. Það verður því hans 200. Evrópuleikur með félaginu.

„Þetta er flott tala og það eru forréttindi að fá að taka þátt í 200 Evrópuleikjum á ferlinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×