Sport

Bale: Wales skiptir meira máli en Ólympíuleikar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Gareth Bale, leikmaður Tottenham, segir að hann muni ekki spila á Ólympíuleikunum í Lundúnum á næsta ári ef það myndi ógna stöðu Wales í heimsknattspyrnunni.

Bretland mun tefla fram sameiginlegu keppnisliði í knattspyrnu á leikunum á næsta ári en knattspyrnusambönd Wales, Skotlands og Norður-Írlands eru afar mótfallin því. Þau telja að sameiginlegt lið ógni sjálfstæði þeirra í knattspyrnuheiminum.

Forráðamenn bæði FIFA og UEFA hafa staðhæft að það sé engin hætta á því en það hefur engu að síður ekki breytt afstöðu sambandanna.

„Það sem mestu máli skiptir er að Wales fái áfram að tefla fram sínu landsliði. Ég er mjög stoltur af því að spila fyrir Wales,“ sagði Bale við breska fjölmiðla.

„Ef það er einhver möguleiki á því að mín þátttaka muni ógna landsliði Wales þá mun ég auðvitað ekki taka þátt í Ólympíuleikunum.“

Hann segist þó vera spenntur fyrir Ólympíuleikunum en hann yrði gjaldgengur í sameiginlegt lið Breta. „Þetta er einstakt tækifæri. Að fá að spila á Ólympíuleikunum í Lundúnum, í Bretlandi, fyrir framan okkar eigin áhorfendur. Vonandi tekst að leysa þessi mál svo ég fái tækifæri til að spila.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×