Erlent

Gaddafí var skotinn í höfuðið

Krufning á líki Gaddafis, fyrrum einræðisherra í Líbýu, sýnir að hann var skotinn í höfuðið.

Á fimmtudaginn birtust hrikalegar myndir í fjölmiðlum um allan heim af Gaddafi í haldi uppreisnarmanna í Líbýu nær dauða en lífi. Á myndunum sást þessi fyrrum einræðisherra alblóðugur og illa farinn. Skömmu síðar var hann svo látinn.

Krufning sem framkvæmd var á líki hans í morgun sýnir að banameinið var byssuskot í höfuðið. Réttarmeinafræðingarnir, sem krufðu lík Gaddafis, vildu ekki tjá sig um það hvort Gaddafi hafi látist í átökum eða verið skotinn af mjög stuttu færi. Hvorki erlendir fulltrúar né óháðir aðilar fengu að fylgjast með krufningunni. Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðjanna og mannúðarsamtök eins og Amnesty vilja að dauði Gaddafis verði rannsakaður.

 Gaddafi var í heimabæ sínum Sirte þegar uppreisnarmenn fönguðu hann. Þeir höfðu þá setið um borgina í margar vikur en undanfarið hefur Gaddafi varist þeim í nokkrum víggirtum húsum ásamt stuðningsmönnum sínum.

Með dauða Gaddafis lauk stríðinu í Líbýu sem staðið hafði í átta mánuði. Landsmenn hafa fangað ákaft á götum úti síðustu daga og hefur verið boðað til sérstakrar frelsishátíðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×