Erlent

Bréf frá Albert Einstein selt á uppboði

Bréf sem Nóbelsverðlaunahafinn Albert Einstein skrifaði árið 1939 var selt á uppboði í Kaliforníu fyrir hálfa aðra milljón króna.

Bréfið sem dagsett er þann 10. Júní 1939 var skrifað til athafnamannsins Hyman Zinn í New York. Í bréfinu varar Einstein við hinni gífurlegu hættu sem Gyðingum stafar af Nasistum í Þýskalandi. Sjálfur flúði Einstein Þýskaland undan Nasistum árið 1933 þegar þeir komust til valda.

Einstein hrósar Zinn í bréfinu fyrir aðstoð hans við Gyðinga í Þýskalandi sem flúðu undan Nasistum á þessum tíma. Einstein segir einnig að í gegnum árþúsundin hafi Gyðingum tekist að lifa af ofsóknir gegn sér með því að sýna samstöðu og hjálpa hverjir öðrum. Nú reyni á þessa samstöðu sem aldrei fyrr.

Bréfið, sem er vélritað,  var selt á yfir tvöföldu verðmati þess fyrir uppboðið. Það er í mjög góðu ásigkomulagi og því fylgir umslagið sem það var sent í en umslagið er merkt með nafni og þáverandi heimilisfangi Einsteins við Princeton háskólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×