Erlent

Lífverði Jacksons var skipað að fela lyfjaglösin

Murray gæti átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi.
Murray gæti átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi. Mynd/AP
Réttarhöldin yfir einkalækni poppgoðsins Michael Jacksons standa nú sem hæst. Conrad Murray hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi en Jackson lést af völdum of stórs lyfjaskammts á heimili sínu í Kalíforníu í júní 2009. Lífvörður Jacksons kom fyrir réttinn í gær sem vitni og lýsti því hvernig Murray hafi skipað honum að fela lyfjaglös sem voru í svefnherbergi Jacksons áður en hann hringdi á sjúkrabíl.

Lífvörðurinn, Alberto Alvarez segir að Murray hafi gripið fjölda pilluglasa sem voru á náttborði stjörnunnar og látið sig hafa þær. Hann hafi sett lyfin í poka og komið þeim í burtu. Þá staðhæfir Alvarez að Jackson hafi um nóttina sem hann lést fengið deyfilifið Propofol beint í æð en það er lyfið sem dró hann til dauða. Profopol í fljótandi formi er hvítt á litinn og segir Alvarez að Jackson hafi kallað lyfið mjólk og að það hafi hjálpað honum að sofna á nóttunni.

Verjendur Murrays staðhæfa hinsvegar að það hafi verið banvænn kokteill Profopols og annara svefnlyfja, sem Jackson hafi sjálfur tekið inn án vitundar Murrays, sem hafi dregið hann til dauða. Verði Murray fundinn sekur á hann yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×