Erlent

Ástarsvindl á Netinu mun algengara en talið var

Um 200 þúsund Bretar, aðallega karlmenn, hafa verið plataðir á Netinu og þeim talin trú um að þeir standi í eldheitu ástarsambandi. Samkvæmt nýrri rannsókn eru svik af þessu tagi mun algengari í raun og veru en opinberar tölur frá lögreglu gefa tilefni til að ætla, því oftast nær skammast menn sín fyrir að hafa gengið í gildruna og segja því ekki nokkrum manni frá.

Opinberar tölur segja að 592 Bretar hafi verið sviknir með þessum hætti frá árinu 2010 en ítarleg skoðannakönnun sem breska blaðið Guardian segir frá gefur til kynna að fórnarlömbin séu um tvo hundruð þúsuns. Svikin ganga út á að þrjótarnir þykjast vera einhleypar huggulegar konur sem séu að leita að ástinni á Netinu.

Samböndum er komið á og á ákveðnum tímapunkti fara hinar ástleitnu kynbombur að biðja um peninga.

Sumir þeirra sem lent hafa í svindli af þessu tagi hafa tapað hundruðum þúsunda punda sem þeir í ástarbríma hafa lagt inn á reikninga hinnar heittelskuðu, án þess þó að hafa nokkru sinni hitt hana augliti til auglits.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×