Erlent

Silvio hefur yfir litlu að gleðjast á afmælisdaginn

Mynd/AP
Silvio Berlusconi er 75 ára gamall í dag en hefur þó yfir litlu að gleðjast. Ítalía stríðir við mikinn efnahagsvanda og nær daglega koma fram kröfur um afsögn forsætisráðherrans litríka. Hann á fjögur dómsmál yfir höfði sér og fleiri munu vera á leiðinni auk þess sem smáatriðum úr einkalífi hans er vandlega lýst í fjölmiðlum dag eftir dag.

Nýjasta vandamálið er mikil óeining innan ríkisstjórnarinnar um það hver eigi að verða næsti seðlabankastjóri Ítalíu. Vandræðin fara ekki fram hjá Silvio sjálfum og í sjónvarpsviðtali í gær sagðist hann helst óska þess í afmælisgjöf að karpið á vettvangi stjórnmálanna hætti.

Fjögur dómsmál hafa verið höfðuð gegn honum í Mílanó, þrjú þeirra snúa að vafasömum viðskiptagjörningum en það sem mesta athygli hefur vakið er ákæra á hendur honum þess efnis að hann hafi greitt sautján ára gamalli stúlku frá Marokkó fyrir hafa við sig kynmök. Þrátt fyrir öll vandræðin hefur hann hingað til haldið nokkuð góðri stjórn á meirihlutanum á þingi og samþykkti þingið niðurskurðartillögur hans með nokkrum meirihluta.

Berlusconi snéri sér að stjórnmálum árið 1994 og er nú á sínu þriðja kjörtímabili sem forsætisráðherra. Hann segist sjálfur ætla að gegna embættinu fram til ársins 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×