Innlent

Forsætisráðherra neitaði að svara fyrirspurn um forsetann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir ætlar ekkert að tjá sig frekar um samskipti sín við forsetann að sinni.
Jóhanna Sigurðardóttir ætlar ekkert að tjá sig frekar um samskipti sín við forsetann að sinni. Mynd/ GVA.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra neitaði að svara fyrirspurn Ólafar Nordal, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um það hvernig hún hygðist bregðast við ummælum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um aðgerðir stjórnvalda í Icesavemálinu. Ólafur Ragnar sagði í fjölmiðlum á dögunum að ríkisstjórnin hefði brugðist algerlega skyldum sínum í Icesave.

Jóhanna sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að hún hefði rætt þetta mál aðeins í fjölmiðlum fyrir helgi þar sem fram hefði komið að hún hygðist ræða málið við forseta Íslands. „Og ég hef ekkert meira um þetta mál að segja á þessu stigi málsins,“ sagði Jóhanna.

Ólöf furðaði sig á viðbrögðum Jóhönnu og spurði hvort forsætisráðherra þætti ekki efni til að ræða þessi mál í sölum Alþingis. „Hefur hæstvirtur forsætisráðherra farið frammá það að kallaður verði saman ríkisráðsfundur?“ spurði Ólöf. Hún ítrekaði kröfu sína um að sett yrði á fót rannsóknarnefnd til að rannsaka feril Icesavemálsins.

„Ég ítreka bara mitt fyrra svar. Hvenær og undir hvaða kringumstæðum ég mun ræða þetta mál við forsetann verður bara að koma í ljós,“ sagði Jóhanna að endingu.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×