Erlent

Ísrael: umsókn Palestínu verður ekki samþykkt

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, telur að umsókn Palestínumanna um aðild að Sameinuðu þjóðunum muni ekki bera árangur. Hann segir að viðurkenning á ríki Palestínumanna og varanlegur friður náist eingöngu með beinum samningaviðræðum.

Palestínumenn munu að öllum líkindum leggja fram umsókn sína um aðild að Sameinuðu þjóðunum í næstu viku. Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna mun taka við henni og leggja hana fyrir Öryggisráðið, þar sem 15 ríki eiga sæti.

Ísraelar og Bandaríkjamenn eru þessari umsókn afar mótfallnir, en Palestínumenn eru vongóðir og búast við að verði umsóknin samþykkt, þá muni það draga úr afskiptum Ísraela.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lét hafa eftir sér við þarlenda fjölmiðla í dag að hann telji ólíklegt að umsókn Palestínumanna fái hljómgrunn í Örygissráðinu. Viðurkenningu á sjálfstæðu ríki Palestínumanna og varanlegum frið verði aðeins náð með beinum samningaviðræðum.

Bandarísk stjórnvöld hafa ýjað að því að þau muni beita neitunarvaldi í Öryggisráðinu verði umsókn Palestínumanna afgreidd þar. Fulltrúar Miðausturlandakvartettsins svokallaða, sem samanstendur af Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og Rússlandi, munu funda í New York í dag til reyna að sannfæra Palestínumenn um að falla frá áformum sínum um að krefjast viðurkenningar á ríkinu hjá Sameinuðu þjóðunum.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, sagði á föstudag að aðild að Sameinuðu þjóðunum væri lögvarinn réttur Palestínumanna. Hann sagði að friðarviðræður við Ísraela hefðu engan árangur borið en Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir að palestínsk stjórnvöld hafi ítrekað forðast frekari samningaviðræður við ísraelsk stjórnvöld. Palestína hefur sem stendur aðeins stöðu áheyrnarfulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum.

Greint er frá því í bandarískum fjölmiðlum í dag að Barack Obama, forseti Bandaríkjana, muni funda með Netanyahu vegna friðarviðræðna sem hafi stöðvast milu Palestínu og Ísraels. Fulltrúar bandarískra stjórnvalda fyrir botni Miðjarðarhafs hafa að undanförnu fundað með fulltrúum bæði Ísraela og Palestínumanna til að freista þess að endurvekja friðarviðræður og koma í veg fyrir að umsókn Palestínumanna um aðild verði afgreidd á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×