Erlent

Nýr leki í pípunum hjá Wikileaks

Julian Assange
Julian Assange
Wikileaks setti í gær rúmlega 500 megabæta skjalapakka inná torrent síður. Skjalapakkinn er sagður innihalda áður óbirt skjöl. Pakkinn er hins vegar ramm-dulkóðaður og þó þúsundir manna hafi sótt hann á netinu getur enginn komist inn í hann. Wikileaks hefur tilkynnt að þegar fram líða stundir muni þeir birta lykilorð sem opnar pakkann á heimasíðu sinni.

Wikileaks hefur undanfarna níu mánuði unnið í samstarfi við 50 fjölmiðla og mannréttinda samtök við að yfirfara og ritskoða skjöl. Skjölunum hafa þeir smám saman lekið á netið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt var á heimasíðu Wikileaks fyrr í dag. Síðan gerir jafnvel að því skóna að skjölin hafi verið neistinn sem hleypti bálinu sem nú logar í Mið-Austurlöndum af stað.

Sendiráðsskjölin óritskoðuð á netið


Yfir 250.000 skjölum sem innihalda póstsamskipti sendiráðs Bandaríkjanna hefur verið sleppt á netið. Skjölin voru í vörslu síðunnar Wikileaks en virðast fyrir slysni hafa lekið á netið.

Um sömu skjöl er að ræða og birtust áður í samstarfi Wikileaks og Guardian. Nú hafa þau hins vegar lekið óritskoðuð og innihalda upplýsingar sem geta reynst heimildarmönnum lífshættulegar.

Hvernig skjölin bárust á netið án ritskoðunar og útstrikunar nafna heimildarmanna er nokkuð óljóst.

Í stuttri yfirlýsingu sem birt var á Twitter síðu Wikileaks segir að ritstjóri Guardian hafi viljandi og án þess að fá nokkurt leyfi birt leyniorð í bók sem gefin var út í febrúar. Leyniorðið hafi nægt til að opna sendiráðspóstana.

Í annarri mun lengri yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Wikileaks kemur fram að síðan hafi sett öll skjölin, rammlega dulkóðuð í pakka inná netið á síðasta ári. Þar hafi allir getað sótt pakkann en ekki komist inn í hann. Nokkrum mánuðum síðar hafi ritstjóri Guardian birt lykilorðið sem gekk að pakkanum í bók sem hann skrifaði um Wikileaks. Nú hafi fólk áttað sig á því að lykilorðið opni pakkann og því séu gögnin komin á netið.

Wikileaks segir að sökin sé öll hjá starfsmönnum Guardian.

Í langri grein á Guardian neita þeir allri ábyrgð. Þeir segja að þegar bókin var gefin út hafi enginn minnst nokkuð á að í henni kæmu fram viðkvæm lykilorð. Guardian segja að það séu grundvallar öryggisráðstafanir að varast það að endurnýta sömu lykilorð tvívegis, eins og Wikileaks virðist hafa gert í þessu tilviki.

Guardian höfðu áður hvatt Wikileaks til að birta skjölin ekki óritskoðuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×