Innlent

Á þriðja tug bílaverkstæða segja upp samningum við tryggingafélög

Á þriðja tug bílaverkstæða hafa óskað eftir uppsögn á samningi sínum við tryggingafélögin. Þau segjast ekki geta fullnægt öryggiskröfum bílframleiðanda ef tryggingafélögin auka ekki greiðslur. Öryggið eigi alltaf að vera aðalatriðið.

Verkstæðin óskuðu eftir uppsögn á samningum um einingaverð á viðgerðum á tjónbifreiðum. Verkstæðin hafa myndað með sér félag réttinga og málningaverkstæða en formaður félagsins segir rekstrarkostnaðinn hafa hækkað umfram það einingaverð sem tryggingafélögin hafa viljað greiða. Ef verðið verði ekki hækkað muni verkstæðin ekki lengur standast öryggiskröfur framleiðanda. Ný og sterkari efni þurfi í bíla og tæknin í bílunum þróist ört.

Ari Ólafsson hjá Réttingaþjónustunni, sem er jafnframt meðlimur í félaginu, segir nýjustu bíla að miklu leyti vera framleidda úr hástyrktarstáli en á núverandi einingaverði tryggingafélagana geti verkstæðin ekki keypt búnað til að gera við slíkt. Búnaðurinn sem verkstæðin nota í dag geti eyðilagt hástyrktarstál.

Þeir segja útreikninga félagsins sýna að hækka þurfi einingaverð réttingaverkstæða um 20%. Samningar verkstæða við tryggingafélög kveði á um að viðgerðir fullnægji öryggiskröfum framleiðanda og vilji verkstæðana sé að verða við þeim kröfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×