Innlent

Segir gjaldeyristekjur 100 verkamanna jafngilda 800 í sauðfjárbúskap

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fimmtíu til hundrað verkamenn í álverum hér á landi skapa jafn miklar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið og um átta hundruð starfsmenn í sauðfjárbúskap, segir prófessor í hagfræði. Hann segir íslenska skattgreiðendur niðurgreiða útflutning á kindakjöti.

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor segir í grein í Fréttablaðinu í morgun að forsvarsmenn bænda haldi því gjarnan fram að ekki sé lengur greitt með útflutningi lambakjöts, enda hafi útflutningsbætur verið aflagðar 1992, en ekki sé allt sem sýnist.

Útflutningstekjur vegna sauðfjárafurða hafi numið 2,75 milljörðum króna á síðasta ári en bændur fái á bilinu 0,4 til 1,2 milljarða króna beint frá ríkinu til að skapa þessar tekjur. Þórólfur segir að það væri auðveldara fyrir hið opinbera að versla þessa milljarða í gjaldeyri beint við bankana en að „senda þessa peninga fyrst í ferðalag upp í sveit."

Þá segir Þórólfur að vegna rekstrarkostnaðar bænda séu hreinar gjaldeyristekjur frá sjónarhóli almennings um 0,45 milljarðar króna til 1,25 milljarðar. Um 800 manns vinni þessi störf og ætlar prófessorinn að bein og óbein verðmætasköpun 40-100 álverssstarfsmanna sé af svipaðri stærðargráðu.

„Ef við horfum á þetta frá sjónarhóli þjóðarinnar, sem borgar fyrir beingreiðslurnar, þá er þetta augljóslega óhagkvæmt. Það væri miklu hagkvæmara að framleiða þessar útflutningstekjur með einhverjum öðrum hætti en að senda þær í gegnum landbúnaðarkerfið. Hins vegar skulum við ekki gleyma því að þetta er hagkvæmt frá sjónarhóli kjötframleiðenda, vegna þess að með útflutningi er kjötið dregið af innlenda markaðnum og þar með hækkar verðið þar. Neytendur ættu, undir venjulegum kringumstæðum að flytja inn kjöt til þess að draga úr áhrifunum," segir Þórólfur.

Bændum er tíðrætt um fæðuöryggi og það réttlæti beingreiðslur.

„Við þurfum að taka þessa fæðuöryggisumræðu og fara í gegnum hana á vitrænum grundvelli. Við vitum það t.d að daginn sem olíuinnflutningur stöðvast til Íslands, þann dag stöðvast íslenskur landbúnaður. Ef við viljum tryggja fæðuöryggi, þá tryggjum við samgöngur til landsins og aðflutning á nauðsynlegustu aðföngum. Ég er ekki viss um að við gerum það með því að reisa tollmúra í kringum íslenskan landbúnað," segir Þórólfur í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis. thorbjorn@stod2.is

Grein Þórólfs í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×