Enski boltinn

Daily Mail: Carlos Tevez búinn að missa fyrirliðabandið hjá City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlos Tevez mætti í fyrsta sinn á æfingu hjá Manchester City í dag eftir að hafa fengið 21 dags frí hjá Roberto Mancini eftir Copa America keppnina. Framtíð Argentínumannsins hjá félaginu hefur verið í miklu uppnámi allt þetta ár eftir að hann lét óánægju sína í ljós og heimtaði það að vera seldur.

Það er enn ekki ljóst hvort að Tevez spili áfram með City-liðinu en hvernig sem það mál endar þá heldur Daily Mail því fram að Tevez sé í það minnsta búinn að missa fyrirliðabandið.

Vincent Kompany var fyrirliði Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn á móti Manchester United um helgina og hann verður áfram fyrirliði hvort sem Tevez spilar með liðinu eða ekki. Leikmenn liðsins vilja að Kompany verði fyrirliði frekar en Tevez.

Tevez á möguleika á að taka þátt í fyrsta leik Manchester City í ensku úrvalsdeildinni sem verður á móti nýliðum Swansea um næstu helgi og það stefnir ekki í það, eins og staðan er núna, að hann verði seldur frá City.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×