Innlent

Skólavörðustígurinn verður göngugata enn um sinn

Ákveðið hefur verið að Skólavörðustígur neðan Bergstaðastrætis verði göngugata til mánudagsins 15. ágúst. Í tilkynningu frá borginni segir að með þessu séu yfirvöld að koma til móts við rekstraraðila við götuna sem óskuðu sérstaklega eftir því að áfram yrði lokað fyrir bílaumferð til þess að greiða fyrir aðgengi gangandi og hjólandi og til að efla mannlíf.

Leyfi var veitt fyrir götuhátíð við Skólavörðustíg 2.- 7. ágúst og fól það í sér lokun neðsta hluta götunnar. Í bréfi frá Miðborginni okkar þar sem óskað er eftir framlengingu kemur fram að almenn ánægja sé meðal rekstraraðila, gesta og viðskiptavina með göngugötuna og að vilji sé til að hafa slíkt fyrirkomulag aftur að ári.

Þá segir að rekstraraðilar við Skólavörðustíg ætli að efna til ýmissa viðburða í vikunni á meðan einungis verður gangandi umferð og hjólandi neðan Bergstaðastrætis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×