Innlent

Nýja brúin opnuð fyrir miðja næstu viku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bílar hafa verið fluttir yfir ána í dag.
Bílar hafa verið fluttir yfir ána í dag. Mynd/ Bjarni
Reynt verður að opna bráðabirgðabrúna yfir Múlakvísl fyrir miðja næstu viku, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Brúarvinnuflokkar og aðrir starfsmenn Vegagerðarinnar vinna dag og nótt við að koma brúnni upp og tengja Hringveginn við hana. Stefnt er að því að bílar og fólk verði flutt yfir brúna þangað til.

Brúin verður 156 metra löng. Stutt er í að allir stálbitarnir verði komnir á sinn stað og stefnt er á að allt trégólfið verði komið upp á brúna. Þá hefst einnig í dag vinna við að setja upp vegrið á brúna og hafist verður handa við að legga slitgólf ofan á trégólfið. Jafnframt er unnið að stífingum og festingum á brúnni.

Stefnt er að því að hleypa vatninu undir nýju brúna aðfararnótt laugardags. Þar sem mikil dægursveifla er í vatnsmagninu er hægast um vik að hleypa vatninu undir þegar það er minnst undir morgun.

Unnið er af krafti við vegtengingu brúarinnar að vestanverðu og koma þar upp garði með grjótvörn við brúarendann.

Verið er að ýta upp efni úr ánni að austanverðu, efni sem fljótið ber með sér en það mun nýtast í varnargarðana og vegagerðina. Byggður verður varnargarður að austanverðu til að verja vegtenginguna við brúna þar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×