Innlent

Segir gagnrýni á bændur ómaklega

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Talsmaður Sauðfjárbænda segir gagnrýni á bændur fyrir að hækka viðmiðunarverðskrá sína ósanngjarna.

Sauðfjárbændur hækkuðu viðmiðunarverð sín í gær um 25 prósent, en afurðastöðvarnar eru ekki bundnar af hækkuninni. Bæði Neytendasamtökin og ASÍ hafa gagnrýnt hækkunina harkalega, en Sindri Sigurgeirsson, talsmaður Sauðfjárbænda, segir gagnrýnina mjög ósanngjarna.

„Í ljósi þess að af heildarútgjöldum heimilanna nemur lambakjöt um 0,56 prósent, þá finnst mér út í hött að stilla því þannig upp að hér sé allt í voða í efnahagslífinu, og kjarasamningar í hættu," segir Sindri.

Meðal þess sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur gagnrýnt er að bændur nýti sér hagstæð skilyrði á útflutningsmarkaði þegar verðið er hátt erlendis, en neytendur geta ekki gert hið sama þegar málum er öfugt farið. Sindri segir að það sé pólitísk ákvörðun að banna innflutning á lambakjöti, en það sé eðlilegt að nýta sóknarfærin og afla gjaldeyris þegar þau eru til staðar.

En er sanngjarnt að neytendur fái ekki að nýta eigin sóknarfæri þegar verðið er lægra erlendis?

„Ef þú berð saman verð á matvöru á Íslandi og erlendis, þá eru sóknarfærin ekki mikil. Þrátt fyrir það að talsmenn Samtaka verslunar og þjónustu haldi því fram að hér sé himinhátt verðlag á matvælum, þá er það einfaldlega ekki rétt. Menn verða bara að skoða það, og það er athyglisvert að Alþýðusambandið hefur ekki viljað gera kannanir á verði á matvælum eftir hrun."

Hægt er að horfa á ítarlegt viðtal við Sindra um verðskrárhækkunina, landbúnaðarkerfið og fæðuöryggishugmyndina í myndskeiði með þessari frétt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×