Innlent

Hægt að ná sínum markmiðum í verðlagsmálum á annan hátt

Mynd/Einar Falur Ingólfsson
Aðalsteinn Á. Baldursson, Formaður Framsýnar, undrast yfirlýsingar Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, þar sem hann hvetur neytendur til að sniðganga íslenskt lambakjöt. Hann segir Gylfa ekki þurfa að beita hótunum til að ná sínum markmiðum í verðlagsmálum.

„Hann er bara að búa þarna óvissu um störf hundruða manna. Er þetta atvinnustefna ASÍ í öllu atvinnuleysinu? að hvetja fólk til að sniðganga íslenska vöru?“ segir Aðalsteinn og leggur áherslu á að fjöldi starfa sé í hættu í kjötvinnslu fari menn að tilmælum forsetans. Það sé mjög sérstakt að forsetinn skuli bregðast við með þessum hætti og hvetja til þess að fólk missi vinnuna, starfsfólk sem sé innan aðildarfélaga Alþýðusambandsins.

Aðalsteinn segir að starfsfólk í afurðastöðvum hafi haft samband við hann um helgina til að lýsa yfir vanþóknun á ummælum forsetans. Það sé bullandi reiði meðal starfsmanna og reyndar forsvarsmanna afurðastöðvanna líka.

„Það er hægt að ná fram sínum markmiðum í verðlagsmálum öðruvísi en með hótunum um það að leggja niður hér fjölda starfa, eins og forsetinn gerir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×