Innlent

Kótelettufélagið: Vanhugsuð ummæli forseta ASÍ

Mynd/Vilhelm
„Þessi vanhugsuðu ummæli hryggja félagsmenn mjög. Forsetinn virðist gleyma því algjörlega að um innlenda framleiðslu er að ræða og íslenskt vinnuafl,“ segir í tilkynningu frá Kótelettufélagi Íslands. Félagsmenn eru afar ósáttir með Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, sem hefur hvatt almenning til að sniðganga lambakjöt vegna nýrrar verðskrár Landssambands sauðfjárbænda, en samkvæmt henni er gert ráð fyrir 25 prósenta hækkun á verði til bænda.

Gylfi sagði í Fréttablaðinu sl. laugardag hækkunina algjörlega úr takti við aðrar hækkanir í samfélaginu. „Neytendur eiga að svara þessu með því að hætta að kaupa lambakjöt. Það gengur ekki að bændur séu með svona svikamyllu.“

Kótelettufélagið var stofnað í Reykjahverfi á Norðausturlandi á síðasta ári. Tilefni stofnunarinnar er að félagsmenn komi saman og borði kótelettur með gamla laginu, það er að segja í raspi með grænum baunum, rauðkáli og með rabarbarasultu. Þá vill félagið stuðla að betri kótelettumenningu í landinu, aukinni neyslu á lambakjöti og bættri matarmenningu.

Rætt var við Þráinn Gunnarsson, formann Kótelettufélagsins, í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag. „Gylfi gleymir því algjörlega að hann er umbjóðandi stórs hluta þess fólks sem vinnur í afurðastöðvunum. Það er vítavert að nokkur maður á Íslandi skuli hugsa svona.“

Hægt er að hlusta á viðtalið hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×