Viðskipti innlent

Afnám gjaldeyrishafta mikilvægt skref - evran verði tekin upp sem fyrst

Afnám gjaldeyrishafta er veigamikil forsenda þess að íslensk fyrirtæki komist aftur á alþjóðlega fjármálamarkaði. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD um Ísland.

Skýrslur af þessu tagi eru gefnar út um einstök ríki með reglulegu millibili, en að þessu sinni kveður við nokkuð svipaðan tón og heyrst hefur frá öðrum alþjóðastofnunum: Að Ísland sé nú á réttri leið við að leysa úr fjármálakreppunni, en enn séu þó ljón í veginum.

Það sem er kannski sérstakt við skýrslur OECD er hinn mikli fjöldi ráðlegginga sem stjórnvöldum er gefinn til að eiga við vandamálin framundan.

Til dæmis víkur stofnunin að gjaldeyrishöftunum, og segir afnám þeirra veigamikla forsendu þess að íslenskt fyrirtæki komist aftur á alþjóðlega fjármálamarkaði. Því lengur sem höftin verði við lýði, því meiri óhagkvæmni í ráðstöfun fjármuna leiði þau til, minni ávöxtunar og meiri brenglunar í ákvarðanatöku. Um leið og takist að ná tökum á óstöðugum aflandskrónueignum útlendinga eigi að afnema höftin.

Þá eigi Íslendingar að stefna að upptöku evru sem fyrst, en krónan sé minnsti sjálfstæði gjaldmiðill heims.




Tengdar fréttir

OECD mælir með óbreyttu kvótakerfi

Efnahags- og framfarastofnunin OECD mælir með að ekki verði hróflað við núverandi kvótakerfi hér á landi, heldur verði auðlindagjaldið hækkað. Það sé vænlegra til að tryggja að fiskveiðikerfið verði áfram arðbært, skilvirkt og sjálfbært, fremur en að stjórnvöld láti undan þrýstingi almennings um grundvallarbreytingar á stjórnun fiskveiða hér við land, breytinganna vegna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar sem fjallar almennt um landshagi og framtíðarmöguleika hér á landi. Kynning á skýrslunni hófst nú klukkan tíu í innanríkisráðuneytinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×