Viðskipti innlent

Selja Lagar­foss með tæp­lega hálfs milljarðs tapi

Árni Sæberg skrifar
Eimskip hefur selt Lagarfoss. Þessi mynd sýnir annað skip félagsins, Brúarfoss.
Eimskip hefur selt Lagarfoss. Þessi mynd sýnir annað skip félagsins, Brúarfoss. Vísir/Vilhelm

Eimskip hefur samið um sölu á skipinu Lagarfoss. Þar sem bókfært verð skipsins er hærra en sem nemur söluverði mun Eimskip færa sölutap að fjárhæð 3,4 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi 2025. Það gerir um 485 milljónir króna. Salan er sögð tengjast lokun kísilversins PCC Bakka.

Í tilkynningu Eimskips til Kauphallar segir að Lagarfoss hafi verið smíðaður árið 2014 í Kína og hannaður sérstaklega fyrir flutningsleiðir Eimskips. Lagarfoss hafi þjónað félaginu í rúman áratug og gengt mikilvægu hlutverki í rekstri þess.

Flutningar fyrir PCC Bakka burðarás í flutningakerfinu

„Ákvörðun um sölu byggir meðal annars á hagstæðum aðstæðum á endursölumarkaði skipa og mótun siglingakerfisins sem hefur verið til skoðunar undanfarna mánuði, sér í lagi eftir tilkynningu PCC Bakka um tímabundna stöðvun á starfsemi. Flutningar fyrir PCC Bakka hafa verið burðarásinn í sérhæfðum strandsiglingum félagsins á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Við söluna á Lagarfossi muni, að minnsta kosti tímabundið, fækka um eitt skip í rekstri Eimskip. Vonir standi til að hægt verði að bjóða áhöfn Lagarfoss starf á öðrum skipum félagsins. Samhliða afhendingu á skipinu muni verða breytingar á sérhæfðum strandsiglingum félagsins á Íslandi. Markmið félagsins muni eftir sem áður vera að þjónusta landsbyggðina með framúrskarandi hætti en umfang sjóflutninga muni óhjákvæmilega minnka. Viðskiptavinir verði upplýstir um breytingar á þjónustu þegar nær dregur og þær liggja fyrir.

„Með ofangreindum aðgerðum og breytingum á siglingakerfi félagsins, sem nú eru til skoðunar, er það mat félagsins á þessum tímapunkti að rekstrarleg áhrif væntra breytinga séu jákvæð til skemmri tíma.“

Seldur til Madeira

Þá segir að kaupandi skipsins sé portúgalska flutninga- og hafnarrekstrarfyrirtækið Grupo Sousa, sem sé með aðsetur á Madeira. Grupo Sousa reki skipafélagið GS Lines sem sinni reglulegum vöruflutningum á milli Portúgals og Azore eyja, Madeira, Canary eyja, Grænhöfðaeyja og Gínea-Bissá í Afríku með sex skipum. 

Gert sé ráð fyrir að afhenda skipið í Reykjavík á tímabilinu ágúst til september, en salan sé háð hefðbundnum fyrirvörum um kaup og sölu skipa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×