Viðskipti innlent

Verð­bólgan hjaðnar á ný

Árni Sæberg skrifar
Sumarútsölur hafa talsverð áhrif á vísitölu neysluverðs.
Sumarútsölur hafa talsverð áhrif á vísitölu neysluverðs. Vísir/Vilhelm

Tólf mánaða verðbólga hjaðnaði um 0,2 prósentustig milli mánaða og er nú fjögur prósent. Verðbólga án húsnæðisliðar er þrjú prósent.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í júlí 2025, sé 658,6 stig og hækki um 0,32 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis sé 528,5 stig og hækki um 0,32 prósent frá júní 2025.

Sumarútsölur séu víða í gangi og föt og skór hafi lækkað um 4,8 prósent, áhrif á vísitöluna -0,18 prósent, einnig hafi húsgögn, heimilisbúnaður og fleira lækkað um 2,2 prósent, áhrif -0,10 prósent. Húsnæði, hiti og rafmagn hafi hækkað um 0,4 prósent, áhrif 0,13 prósent, og flugfargjöld til útlanda hafi hækkað um 19,9 prósent, áhrif 0,48 prósent.

Síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 4,0 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,0 prósent.

Næsti stýrivaxtaákvörðunarfundur peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands er þann 20. ágúst. Verðlagsmælingin nú er sú síðasta fyrir fundinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×