Viðskipti innlent

Sveitarfélag ætlar að stefna Arion banka vegna endurútreiknings

Arion Banki.
Arion Banki.
Sveitarfélag á suðvesturhorninu ætlar að stefna Arion banka fyrir Héraðsdóm í næstu viku vegna endurútreiknings á gengisláni. Prófmál, sem getur haft víðtæk áhrif á endurútreikning á gengislánum í atvinnulífinu, segir hæstaréttarlögmaður.

Nú þremur árum eftir að krónan hrundi og nærri ári eftir að gengistryggð lán voru dæmd ólögleg í Hæstarétti - sér enn ekki fyrir endann á því hvernig eigi að gera upp þessi lán. Um fjögur hundruð manns hafa kvartað til umboðsmanns skuldara yfir endurútreikningi gengislána og um helgina birti þingmaður Sjálfstæðismanna lánareikni á heimasíðu sinni til að vekja athygli manna á ýmsum álitamálum í útreikningum bankanna.

Ein reikniaðferðin er fengin frá lögmannastofunni Veritas þar sem menn vinna nú af kappi að stefnu á hendur Arion banka vegna 200 milljóna króna láns sem sveitarfélag tók árið 2006. Þá er stofan að skoða gengislánamál um 20 einstaklinga og farið verður í prófmál vegna þeirra á næstu vikum.

Gengislánalög viðskiptaráðherra áttu að taka af vafa um hvernig bæri að endurreikna hin ólöglegu lán. Þó telja Veritas lögmenn forsendur til að stefna Arionbanka, þar sem hann taki ekki tillit til þess að sveitarfélagið hafi greitt höfuðstól lánsins niður um 70 milljónir króna. Þannig leggi bankinn seðlabankavexti ofan á upphaflega höfuðstólinn, á tólf mánaða fresti sem velti upp á sig eins og snjóbolta - eins og sést á þessari súlu, sveitarfélagið fái síðan sömu vexti ofan á sínar greiðslur sem dragast frá en minni súlan sýnir hversu léttvægir þeir vextir eru í samanburðinum.

Veritas segir að fyrst bankinn tók athugasemdalaust við afborgunum af höfuðstól frá sveitarfélaginu fyrstu árin - þá geti hann ekki reiknað vexti ofan á höfuðstól sem sannanlega hefur verið greiddur niður.

En voru þá gengislánalög viðskiptaráðherra óskýr?

„Við höfum að minnsta kosti séð fjölmörg dæmi um að það er misjafnt hvernig bankarnir reikna höfuðstólinn og niðurstöður þeirra. þar af leiðandi eru breytingarnar óskýrar. Fjölmargir aðilar, eins og stærðfræðingar og fleiri, eru ekki sammála um það hvernig á að reikna þetta,“ segir Skarphéðinn Pétursson, hæstaréttalögmaður hjá Veritas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×