Það var seinni partinn í gær sem þota bresku krúnunnar lenti á Reykjavíkurflugvelli. 8-10 manna hópur af nánustu vinum Vilhjálms var með í för en hópurinn hélt beint á Reykjavík Hilton Nordica.
Efsta hæð hótelsins var leigð undir hópinn og gistir Vilhjálmur í forsetasvítunni. Þar var síðan haldið steggjapartý til heiðurs Vilhjálmi í gærkvöldi.

Ein af þeim sem var í partýinu er hin landsþekkta Tobba Marinósdóttir en vinur hennar sem rekur viðburðarfyrirtæki hér á landi sá um skipulagninu á ferðinni. Hún segir að Vilhjálmur hafi meðal annars sungið í karókí, hann hafi verið mjög viðkunnalegur og ekki litið stórt á sig.
Myndatökur í partýinu voru stranglega bannaðar en þó náðust myndir á síma í anddyri hótelsins í morgun rétt áður en hópurinn fór út í rútu.
Eftir því sem fréttastofa kemst næst mun hópurinn mæta á sérstakt uppistandskvöld hjá Mið-Ísland hópnum á Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld. Ari Eldjárn einn af forsprökkum hópsins vildi þó lítið gefa upp um kvöldið í samtali við fréttastofu og sagði að það væri trúnaðarmál hverjir kæmu á uppistand hjá hópnum.
Heimildir fréttastofu herma að einhverjum gestum verði leyft að fylgjast með kvöldinu sem hefst í Þjóðleikhúskjallaranum klukkan átta, um þetta gildi gamla góða reglan, fyrstir koma fyrstir fá.