Innlent

Spjöldin hjálpa til við lestur

MYND/Valli

Daníel Þór Ingvarsson, 15 ára, notar pappaspjöld til þess að ná betri árangri í lestri. Daníel hannaði sjálfur spjöldin og segir þau afar gagnleg við lærdóminn.

Daníel, sem er nemi í Valhúsaskóla, hefur átt við lestrarörðugleika að stríða. Fyrir ári notaði hann reglustiku til þess að hjálpa sér við lestur og upp úr því spratt hugmyndin að spjöldunum. „Þetta hjálpaði honum mikið en spjöldin eru renningar með eins konar eyru sem eru fest við síðuna. Þannig undirstrikar spjaldið hverja línu í textanum," segir Vilborg Aldís Ragnarsdóttir, móðir Daníels.

Daníel og Vilborg fengu Odda til að skera út spjöld í tveimur stærðum. Þau ákváðu í framhaldinu að gera þarfagreiningu í Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla. Það heppnaðist vel og í kjölfarið gáfu þau skólunum 70 spjöld. „Spjöldin voru fyrst um sinn notuð við sérkennslu og á bókasafninu. Nú eru nokkrir kennarar farnir að nota þau við kennslu," segir Vilborg.

Mæðginin ætla að halda áfram hönnun spjaldanna og jafnvel skipta um efnivið í þeim. Þau segja spjöldin geta hentað öllum sem eiga við lestrarörðugleika að stríða, jafnt ungum sem öldnum. - hms






Fleiri fréttir

Sjá meira


×