Fótbolti

Bernd Schuster er hættur að þjálfa Besiktas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bernd Schuster.
Bernd Schuster. Mynd/Nordic Photos/Getty
Þjóðverjinn Bernd Schuster er hættur sem þjálfari tyrkneska liðsins Besiktas vegna þess að hann segist ekki hafa náð þeim árangri sem hann ætlaði sér. Hann tók við Besiktas-liðinu í júní, gerði tveggja ára samning og var með 2,6 milljónir evra í árslaun.

„Uppsögnin kom okkur á óvart. Schuster sagðist vilja hætta með liðið af því hann var ekki ná þeim árangri sem hann ætlaði sér. Hann vildi ekki notfæra sér okkar traust og vildi ekki fá borgað fyrir ekki neitt," sagði Mete Duren, talsmaður Besiktas.

Schuster gerði Real Madrid að spænskum meisturum árið 2008 en það hefur lítið gengið hjá Besiktas upp á síðkastið. Liðið var aðeins búið að vinna einn af síðustu sjö leikjum sínum og er núna bara í sjöunda sæti deildarinnar, 21 stigi á eftir toppliði Fenerbahce.

Það dugði ekki Besiktas-liðinu að Schuster fékk heimsþekkta leikmenn eins og Ricardo Quaresma, Guti, Hugo Almeida og Simao til liðsins. Aðstoðarmaður hans, Tayfur Havutcu, stýrir liðinu út tímabilið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×