Innlent

Pólitískt forystuleysi að valda þjóðinni skelfilegum skaða

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.
Atvinnuhorfur eru mjög dökkar fyrir haustið og veturinn og stefnir í að átján þúsund manns verði án vinnu, að mati Alþýðusambands Íslands, sem sendi í dag ákall til ríkisstjórnarinnar um að grípa til aðgerða. Forseti ASÍ segir að pólitísk kreppa og forystuleysi sé að valda þjóðinni skelfilegum skaða.

Forseti Alþýðusambandsins, Gylfi Arnbjörnsson, segir fimmtán þúsund manna atvinnuleysi nú nógu slæmt en það stefni í að verða enn verra í vetur; fari yfir tíu prósent og 17-18 þúsund manns verði án atvinnu.

Með stöðugleikasáttmálanum fyrir ári voru kynnt áform í atvinnumálum sem fæst hafa náð fram að ganga. Forseti ASÍ kennir stjórnarflokkunum um. Landið búi við forystuleysi og í raun pólitíska kreppu. Það sé mjög erfitt að koma málum í gegn og það sé að valda þjóðinni skelfilegum skaða.

ASÍ hvetur ríkisstjórnina til að greiða fyrir verkefnum eins og virkjunum í Þjórsá og á Reykjanesi. Gylfi segir hægt að skapa mikið af störfum með því að nýta tækifæri í stóriðjunni. Þar séu fyrirtæki að banka upp á en fái í raun mjög lítil svör.

Það sama eigi við um samgöngumálin. Lífeyrissjóðir hafi lagt fram 100 milljarða króna á borðið til að fjármagna framkvæmdir fyrir ríkissjóð á næstu fjórum árum. Þetta sé að rykfalla á borðum.

Gylfi segir skelfilegt að hugsa til þess að það sé hægt að fjármagna verkefni en ekki sé farið í þau. Ástæðan sé sú að það sé ekki búið að taka ákvarðanir á vettvangi stjórnmálanna um hvernig eigi að gera þetta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×