Fótbolti

Mourinho: Ætlar að velja sólina, stöndina og svefninn frekar en HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Inter.
Jose Mourinho, þjálfari Inter. Mynd/AFP

Jose Mourinho, þjálfari Inter, ætlar að taka sér gott sumarfrí með fjölskyldunni og mun ekki eyða því í að fylgjast með Heimsmeistarakeppninni í Suður-Afríku í sumar. Mourinho á eftir tvo úrslitaleiki með Inter þar sem lærisveinar hans gætu fullkomnað þrennuna en eftir það er hann farinn í frí á sólarströnd.

„Ég mun ekki verða æstur áhorfandi á HM í sumar. Það er öruggt að ég fer ekki til Suður-Afríku og ég ætla ekki að skrifa um HM eða vinna í tengslum við keppnina. Ég óska þess að komast á ströndina, í sólina og ná að sofa vel, ekkert annað," sagði Mourinho við Reuters-fréttastofuna.

Mourinho segir það heldur ekki inni í myndinni hjá honum strax að fara að þjálfa landslið.

„Ég er alltof ungur til þess að þjálfa landslið. Þegar maður er að þjálfa landslið þá á maður að vera á enda þjálfaraferilsins síns. Ég er ungur og frískur ennþá og ræð alveg við það að vera að þjálfa lið í þremur eða fjórum keppnum í einu," sagði Mourinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×