Viðskipti innlent

Skattalega óhagstætt fyrir ríkið að eigandinn sé sænskt félag

HS Orka. Skattasérfræðingur segir það skattalega óhagstætt fyrir ríkið að eigandinn sé sænskt félag en ekki kanadískt.
HS Orka. Skattasérfræðingur segir það skattalega óhagstætt fyrir ríkið að eigandinn sé sænskt félag en ekki kanadískt.

Það er óhagstæðara fyrir íslenska ríkið að eigandi HS Orku er sænskt félag en ekki kanadískt. Þetta segir forstöðumaður skattasviðs KPMG. Ef eigandinn væri skráður í Kanada, en ekki Svíþjóð, nyti íslenska ríkið aukinna skatttekna vegna eignarhaldsins.

Samkvæmt íslenskum lögum ber arðgreiðsla, sem erlent félag fær frá íslensku hlutafélagi, fimmtán prósent skatt sem íslenska félaginu ber að halda eftir af arðgreiðslunni og greiða í ríkissjóð.

Símon Þór Jónsson, forstöðumaður skattasviðs KPMG, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að þetta gildi um öll erlend félög. Það sem skilji á milli landa séu síðan tvísköttunarsamningar. Þannig hafi Ísland gert slíkan samning við Kanada og með honum lækki skatturinn niður í fimm prósent. Tvísköttunarsamningur milli Norðurlandanna feli hins vegar í sér að að arður frá íslensku félagi til sænsks félags sé undanþeginn skattlagningu á Íslandi ef sænska félagið sé raunverulegur móttakandi arðgreiðslunnar.

Símon Þór segir að ef horft sé til þessa sé óhagstæða fyrir íslenska ríkið að móttakandi væntanlegra arðgreiðslna frá HS Orku sé sænskt félag heldur en ef það væri kanadískt. Ef gert sé ráð fyrir að fjárfesting Magma Energy í HS Orku verði 30 milljarðar króna til 65 ára og arðurinn af fjárfestingunni verði 5 prósent árlega þá verði heildararðgreiðslur á 65 árum 97,5 milljarðar króna. Ef eigandinn væri kanadískt félag myndu skattekjur íslenska ríkisins verða tæplega 5 milljarðar króna en 0 krónur undir sænsku eignarhaldi eins og fyrirkomulagið sé núna.

Símon Þór setur þetta hins vegar fram með þeim fyrirvara að hugsanlega verði litið svo á að hið kanadíska móðurfélag sé raunverulegur móttakandi arðsins þrátt fyrir sænskt eignarhald, ekki sé sjálfgefið að litið verði á hið sænska félag sem eiganda arðsins í skilningi skattalega þótt það sé talinn eigandi í skilningi laga um erlenda fjárfestingu.


Tengdar fréttir

Beaty geti ekki hætt við kaupin á HS Orku

Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar fær ekki séð að forstjóri Magma Energy geti hætt við kaupin á HS orku. Hann segir að ef ríkið ætli sér að grípa inn í viðskiptin muni Reykjanesbær kanna rétt sinn gagnvart hinu opinbera.

Magma opið fyrir því að selja erlendum fjárfesti hlut í HS Orku

Magma upplýsti kanadísku kauphöllina um vilja til að selja hlut í HS Orku til annarra erlendra fjárfesta. Fyrirtækið bauð lífeyrissjóðunum fyrir aðeins mánuði að kaupa fjórðungshlut í HS Orku, en ríkissjóður hafði hvatt til þess á fyrri stigum. Þetta var eftir að skrifað hafði verið undir kaup á meirihluta í HS Orku.

Hjördís skoðar söluna á Magma

Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, verður formaður nefndar, sem forsætisráðherra hefur skipað til þess að meta lögmæti kaupa fyrirtækisins Magma Energy á eignarhlutum í HS Orku og starfsumhverfi orkugeirans hér á landi.

Hótar að hætta við kaupin á HS Orku

Ross Beaty, forstjóri kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy, hefur hótað að fresta eða jafnvel hætta við kaup fyrirtækisins á HS Orku vegna pólitískrar óvissu, að því er Financial Times greinir frá í dag.

Átelur stjórnvöld vegna Magma-máls

Viðskiptaráð er mjög óánægt með framgöngu ríkisstjórnarinnar í máli kanadíska fyrirtækisins Magma Energy. Í greinargerð frá Viðskiptaráði um málið segir að hringlandaháttur, stefnuleysi og ákvarðanafælni stjórnvalda í stórum og mikilvægum málum geri mörgum aðilum í atvinnulífinu erfitt um vik.

Magma segir áskanir Bjarkar vera fráleitar

Framkvæmdastjóri Magma Energy á Íslandi hafnar alfarið ásökunum Bjarkar Guðmundsdóttur tónlistarmanns þess efnis að fyrirtækið vilji eignast allar orkuauðlindir á Íslandi. Ummælin lét Björk falla í viðtali við AFP fréttaveituna í Helsinki í Finnlandi í gær.

Gæti átt afnotarétt að auðlindinni í mörg hundruð ár

Ekkert í gildandi lögum kemur í veg fyrir að afnotaréttur að orkuauðlindum verði framlengdur oftar en einu sinni. Það er því ekkert í lögunum sem bannar Magma Energy að hafa afnotarétt að orkuauðlindum á Reykjanesi í gegnum eignarhald sitt á HS Orku í til dæmis 500 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×