Innlent

Fjárfesting HS Orku upp á tvo milljarða í uppnámi

HS Orka sótti um leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun í október. Orkustofnun er enn að fjalla um umsóknina, sem þykir benda til þess að stofnunin telji einhverja annmarka á að samþykkja hana.Fréttablaðið/Valli
HS Orka sótti um leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun í október. Orkustofnun er enn að fjalla um umsóknina, sem þykir benda til þess að stofnunin telji einhverja annmarka á að samþykkja hana.Fréttablaðið/Valli
Tveggja milljarða króna fjárfesting HS Orku í gufuhverfli er í uppnámi vegna ákvörðunar stjórnvalda um að koma fyrirtækjum sem nýta orkuauðlindir í meirihlutaeigu ríkisins.

HS Orka tók nýverið við nýjum gufuhverfli sem áformað er að nýta fáist leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun. Júlíus Jónasson, forstjóri HS Orku, segir að fáist leyfi til að stækka virkjunina þurfi að bora sex til átta borholur á virkjanasvæðinu til að nýta hverfilinn.

Þau áform eru í uppnámi fái kaup kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy á HS Orku ekki fram að ganga, segir Júlíus. Hann segir að nýir eigendur hafi ætlað að leggja eigið fé í að stækka virkjunina og taka lán til viðbótar. Nú séu þau áform í uppnámi vegna ákvörðunar stjórnvalda um að opinberir aðilar eigi alltaf að lágmarki helming hlutafjár í orkufyrirtækjum.

Júlíus segir dagljóst að þeir tímar séu liðnir þegar hægt hafi verið að fjármagna virkjanir að fullu með lánum. Fáist ekki eigið fé sé því óvíst um framtíð áforma um að stækka Reykjanesvirkjun.

Júlíus segir það ekki mistök að hafa keypt gufuhverfilinn, sem framleiddur er hjá Fuji í Japan, og kostaði um tvo milljarða króna. Hverfillinn var pantaður fyrir um tveimur árum, og er sérsmíðaður fyrir jarðhitasvæðið á Suðurnesjum. Hefði HS Orka viljað hætta við kaupin hefði félagið þurft að greiða Fuji hundruð milljóna fyrir ekki neitt, segir Júlíus. Því hafi verið talið rétt að taka við hverflinum, og hefur hann staðið á gólfi stöðvarhúss Reykjanesvirkjunar frá því snemma í júní. „Við vonum að tapið verði minna af því að taka þetta inn og bera vextina,“ segir Júlíus.

HS Orka sótti um leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun í október 2009. Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri hjá Orkustofnun, segir umsóknina enn í vinnslu, óskað hafi verið eftir frekari gögnum, sem berist vonandi fljótlega.

Heimildir Fréttablaðsins herma að dráttur á afgreiðslu umsóknarinnar sýni að stofnunin telji ekki rétt að samþykkja stækkunina miðað við fram komin gögn.

Júlíus segir að boruð hafi verið ný tilraunahola í sumar, og fljótlega verði hægt að mæla hversu mikla orku megi fá úr henni. Hann segir sérfræðinga Orkustofnunar hafa áhyggjur af því að svæðið beri ekki fleiri borholur, en nýja holan muni vonandi sýna fram á að þær áhyggjur séu óþarfar. Hverju það skilar er annað mál, þegar alls óvíst er hvort fjármagn fæst í frekari framkvæmdir, segir Júlíus. Nýi hverfillinn getur framleitt um 50 megavött. Bora þyrfti sex til átta holur til viðbótar til að nýta hann að fullu.brjann@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×