Erlent

Ísraelar ósamstiga um kröfur Bandaríkjanna

Benjamin Netanjahú
Forsætisráðherra Ísraels ósáttur við kröfur Bandaríkjanna.
nordicphotos/AFP
Benjamin Netanjahú Forsætisráðherra Ísraels ósáttur við kröfur Bandaríkjanna. nordicphotos/AFP

Ísrael, AP Tilgangur Baracks Obama með því að boða Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, á sinn fund í Washington í síðustu viku var að kynna þær kröfur sem Bandaríkjamenn gera til Ísraelsstjórnar.

Kröfurnar eru í tíu liðum, að því er fram kemur í ísraelska blaðinu Haaretz. Fjórar snúa að Jerúsalem, að opnuð verði viðskiptaskrifstofa Palestínumanna í Austur-Jerúsalem, hætt verði við byggingarframkvæmdir í hverfum gyðinga í borgarhlutanum, hætt verði að jafna við jörðu byggingar Palestínumanna í A-Jerúsalem og ekkert verði byggt í hverfinu Ramat Shlomo.

Ísraelar hafa þó ekki síður áhyggjur af þeirri kröfu Bandaríkjamanna að efnisatriði deilnanna verði rædd á óbeinum samningafundum, þar sem Ísraelar og Palestínumenn ræða hvorir í sínu lagi við bandaríska milligöngumenn. Það sem Ísraelar óttast er að þetta opni leið fyrir það að endanleg niðurstaða fáist, sem Ísraelum verði gert að fallast á án beinna viðræðna við Palestínumenn.

Sjálfur hefur Netanjahú lýst yfir vilja til að halda áfram með framkvæmdir fyrir gyðinga í austurhluta Jerúsalemborgar. Nú virðist þó kominn upp ágreiningur innan ríkisstjórnar hans um málið, því ráðherrar Verkamannaflokksins segja nú nauðsynlegt að leysa ágreininginn við Bandaríkjamenn eigi stjórnin að lifa áfram.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×