Innlent

Samkynhneigðar stúlkur óánægðar með lífið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stúlkur koma verst út úr rannsókninni.
Stúlkur koma verst út úr rannsókninni.
Vísbendingar eru um að samkynhneigðir unglingar meti lífsánægju sína mun lakari en gagnkynhneigðir jafnaldrar þeirra gera. Lífsánægja samkynhneigðra stúlkna er síst. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem gerð var við Háskólann á Akureyri og birtist í nýjasta hefti Sálfræðiritsins sem kom út í vikunni.

Um 2% stelpna og stráka í tíunda bekk sögðust hafa verið skotin í einhverjum af sama kyni en 2% stráka og 1% stelpna höfðu sofið hjá einhverjum af sama kyni. Stelpur sem sögðust hafa verið skotnar í öðrum stelpum reyndust óánægðari með lífið en aðrir hópar. Strákar sem höfðu sofið hjá öðrum strákum og stelpur sem hafa sofið hjá stelpum komu einnig verr út úr lífsánægjumælingunni.

Rannsakendur segja að minni lífsánægja hjá samkynhneigðum unglingum skýrist að hluta til vegna þess að tengsl þeirra við skólann og foreldra séu lakari en tengsl gagnkynhneigðra unglinga við skóla og foreldra. Þá séu tengsl samkynhneigðra stráka við besta vin sinn lakari en tengsl gagnkynhneigðra stráka. Þetta skýri þó ekki allan muninn á lífsánægju unglinganna.

Við rannsóknina voru notuð gögn úr íslenskum hluta alþjóðlegrar könnunar á heilsu og lífskjörum skólanema sem unnin er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Helmingur allra nemenda í 10. bekk, næstum 2000 einstaklingar, svöruðu spurningalista þar sem sérstaklega var spurt um kynhneigð.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×