Lífið

Bretar falla fyrir Þorsteini

Þorsteinn Gunnarsson fær frábæra dóma fyrir frammistöðu sína í hlutverki Jóhanns í Faust en sýningin sjálf fær misjafnar viðtökur hjá breskum gagnrýnendnum.
Fréttablaðið/Anton
Þorsteinn Gunnarsson fær frábæra dóma fyrir frammistöðu sína í hlutverki Jóhanns í Faust en sýningin sjálf fær misjafnar viðtökur hjá breskum gagnrýnendnum. Fréttablaðið/Anton

Breskir gagnrýnendur virðast ekki hafa fallið í stafi yfir uppfærslu Vesturports á Faust en enska útgáfan af þessari sýningu leikhópsins og Borgarleikhússins var frumsýnd á föstudag. Gagnrýnandi This is London, Henry Hitchings, gefur sýningunni raunar bara tvær stjörnur og segir Faust ekki gera neitt fyrir fólk sem hafi áhuga á ljóðagerð og skrifum Goethes.

„Þar sem yfirlýst markmið Vesturports er að gera verk Goethes aðgengilegra fleirum þá er ekki mikið í henni fyrir aðdáendur þýska skáldsins,“ skrifar Hitchings Charles Spencer hjá Telegraph tekur í svipaðan streng en báðir gagnrýnendur eru ákaflega hrifnir af frammistöðu Þorsteins Gunnarssonar í aðalhlutverkinu, þeir sem hafi gaman af hefðbundnum klassískum uppfærslum skuli hins vegar forðast Faust.

„Og jafnvel þeir, sem kunna vel við villtari hliðar leikhússins, eiga eftir að verða fyrir ákveðnum vonbrigðum með þessa tilraun,“ skrifar Spencer og gefur Faust þrjár stjörnur.

Michael Billington hjá Guardian gefur sýningunni einnig þrjár stjörnur. Billington segir flest leikhúsfólk þekkja til Vesturports enda hafi sýningar á borð við Rómeo & Júlíu og Hamskiptin verið í heimsklassa. „En þessi sýning skýtur aðeins yfir markið,“ skrifar Billington. Hann er hins vegar yfir sig hrifinn af Þorsteini Gunnarssyni, Birni Hlyni Haraldssyni og Unni Ösp Stefánsdóttur. Kate Basset hjá Independent er hins vegar mun hrifnari, hún segist hafa orðið innblásin af hugmyndum Vesturports um Faust og hrósar hinni skapandi óreglu sem ríkir uppi á sviði.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.