Innlent

Hanna Birna upplýsir á morgun hvort hún verður forseti

Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Hanna Birna Kristjánsdóttir ætlar ekki að upplýsa fyrr en við meirihlutaskiptin á morgun, hvort hún þiggur stöðu forseta borgarstjórnar. Hún kvaddi starfsfólk ráðhússins í morgun, þennan síðasta dag sinn í stóli borgarstjóra.

Nýr meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar tekur við stjórn Reykjavíkurborgar á fundi borgarstjórnar sem hefst klukkan tvö á morgun. Fram hefur komið í fréttum okkar að Hanna Birna Kristjánsdóttir íhugi alvarlega að þiggja boð tilvonandi meirihluta um að taka að sér embætti forseta borgarstjórnar.

Ekki náðist í Hönnu Birnu í morgun sem nú er á sínum síðasta degi í stóli borgarstjóra - og var kveðjukaffi henni til heiðurs með starfsmönnum í morgun. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hyggst Hanna Birna ekki upplýsa um það hvort hún þekkist boð nýja meirihlutans um stöðu forseta borgarstjórnar fyrr en á borgarstjórnarfundinum á morgun. Þess má geta að hlutverk forseta er að stýra fundum borgarstjórnar og að stýra starfi stjórnarinnar. Hann er í raun oddviti sveitarfélagsins - á meðan borgarstjórinn er framkvæmdastjóri borgarinnar og yfirmaður starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu vilja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skoða málin á breiðari grunni, þ.e. að boð nýja meirihlutans feli ekki aðeins í sér tilboð um embætti fyrir Hönnu Birnu heldur raunhæft tilboð um aukið samstarf á vettvangi borgarstjórnar. En eins og kunnugt er var mikil samvinna milli meiri- og minnihluta síðustu tvö ár undir stjórn Hönnu birnu - og lýsti hún því ítrekað yfir fyrir kosningar að draumur hennar væri samstjórn allra flokka á vettvangi borgarstjórnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×