„Það er fyrst og fremst mikill heiður að fá að vinna með svona mönnum eins og Kristjáni Jóhannsyni," segir Geir Ólafsson. Hann hyggst gefa út óperuplötu um næstu jól og upptökustjóri verður sjálfur Kristján Jóhannsson, einn fremsti tenór landsins og þótt víðar væri leitað. Þetta er heldur betur kúvending á ferli Geirs en hann hefur hingað til verið þekktastur sem Frank Sinatra Íslands og sá tónlistarstíll á fátt sameiginlegt með óperum úr hinum sígilda heimi.
Óttar Felix gefur út plötuna og Geir segist vera tilbúinn með efni á hana, býst meðal annars við því að taka Nessun Dorma og upplýsir að fullskipuð fílharmoníusveit muni leika undir á disknum. „Þetta er bara gaman fyrir mig, að gefa fólki smjörþefinn af því sem ég hef verið að gera undanfarin ár," segir Geir en hann hefur lagt stund á söngnám í Söngskólanum undir styrkri stjórn Más Magnússonar. Þá hefur hann einnig verið í einkatímum hjá Kristjáni sjálfum að undanförnu
„Þetta er auðvitað algjör viðsnúningur hjá mér en engu að síður tel ég rétta tímann vera núna, að ég sé tilbúinn."- fgg